Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 365. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 586  —  365. mál.




Nefndarálit


um frv til l. um breyt. á lögum á orkusviði.

Frá iðnaðarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Skarphéðinsson, Guðjón Axel Guðjónsson og Jónínu S. Lárusdóttur frá iðnaðarráðuneyti, Baldur Guðlaugsson og Þórhall Arason frá fjármálaráðuneyti, Sigurð Snævarr, Dag B. Eggertsson, Svandísi Svavarsdóttur og Ólaf F. Magnússon frá Reykjavíkurborg, Dan Brynjarsson frá Akureyrarbæ, Friðrik Sophusson, Jónas Bjarnason og Eggert Guðjónsson frá Landsvirkjun, Pál Gunnar Pálsson og Guðmund Sigurðsson frá Samkeppniseftirlitinu, Lárus Blöndal, Svein Þórarinsson, Pétur Þórðarson, Steingrím Jónsson, Þröst Magnússon og Guðmund Karlsson frá Rarik, Kristján Haraldsson og Kristján Pálsson frá Orkubúi Vestfjarða og Júlíus Jónsson frá Hitaveitu Suðurnesja.
    Nefndinni bárust skriflegar umsagnir um málið frá starfsmannaráði Rarik, Reykjavíkurborg, starfsmannafélagi Orkubús Vestfjarða, Fasteignamati ríkisins, ríkisskattstjóra, Norðurorku, Neytendasamtökunum, Samkeppniseftirlitinu, Landsvirkjun, Akureyrarbæ, Umhverfisstofnun, Grundarfjarðarbæ, Orkustofnun, Alþýðusambandi Íslands og talsmanni neytenda.
    Í frumvarpinu er m.a. lagt til að gerð verði breyting á meðferð eignarhluta ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hf., Orkubúi Vestfjarða hf og Rarik hf. þannig að ábyrgð á eignarhlutunum verði færð frá iðnaðarráðherra til fjármálaráðherra. Þá er lagt til að fjármálaráðherra leggi allan eignarhluta ríkisins í Rarik hf. og Orkubúi Vestfjarða hf. inn í Landsvirkjun sem viðbótareigendaframlag ríkisins. Einnig er lagt til að kveðið verði á um að Rarik hf. taki yfir allar skattaréttarlegar skyldur og réttindi sem að öðrum kosti hefðu fallið á Rafmagnsveitur ríkisins vegna rekstrar þeirra á tímabilinu 1. janúar til 1. ágúst 2006 auk þess sem nánar er kveðið á um yfirfærslu eigna.
    Við meðferð frumvarpsins í nefndinni hefur m.a. komið fram það mat Samkeppniseftirlitsins að óbreytt kynni frumvarpið, ef að lögum yrði, að leiða til styrkingar á markaðsráðandi stöðu Landsvirkjunar á markaði fyrir smásölu raforku til stórnotenda og á markaðnum fyrir framleiðslu og heildsölu á raforku. Enn fremur kunni Landsvirkjun að komast í markaðsráðandi stöðu á markaði fyrir smásölu raforku til almennra nota. Ástæða sé því til að ætla að frumvarpið muni að óbreyttu hindra virka samkeppni á mörkuðum fyrir framleiðslu og smásölu raforku, í skilningi 1. mgr. 17. gr. samkeppnislaga.
    Nefndin telur að huga þurfi betur að málum er varða yfirfærslu eignarhluta ríkisins í Rarik hf. og Orkubúi Vestfjarða hf. til Landsvirkjunar og leggur því til að þeim hluta frumvarpsins verði frestað með því að fella viðkomandi ákvæði brott en frumvarpið samþykkt að öðru leyti.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Sigurjón Þórðarson skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Helgi Hjörvar og Gunnar Örlygsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Jón Bjarnason sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu en með fyrirvara.

Alþingi, 7. des. 2006.


Hjálmar Árnason,

form., frsm.

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Jóhann Ársælsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.

Katrín Júlíusdóttir.

Þórdís Sigurðardóttir.


Sigurjón Þórðarson,

með fyrirvara.